laugardagur, júní 16, 2012

Lakkaðar táneglur og tælenskt fótanudd

Dagurinn í gær endaði á fótsnyrtingu og lokkuðum tánöglum (ekki Oddur). Sex tælenskar konur dunduðu við tærnar á okkur í klukkustund og við svifum út á tátiljunum okkar eftir aðgerðina. Á hótelinu hittum við tvo gæja sem við spjölluðum við og voru þeir báðir að vinna að málefnum Burma. Annar er Skoti og er yfirmaður allra skrifstofa í flóttamannabúðum á landamærum Burma og Tælands sem eru nokkrar. Hinn er Bandaríkjamaður og ellilífeyrisþegi og er að þjálfa burmennsk ungmenni nokkurs konar starfsþjálfun til að hjálpa þeim að koma undir fótunum. En það er einmitt það sem Freyja er líka að vinna að hér. Að sjálfsögðu var það málefni aðalumræðan og kemur Freyju vel því hún er að safna í blaðagrein sem hún ætlar að skrifa um málefni Burma. Við fengum að þefa aðeins af rigningunni í dag eða skúrunum, ég hef aldrei séð svona úrhelli áður og var það ævintýralegt. Þegar eitt úrhellið steyptist yfir settumst við inn á nuddstofu og fengum okkur fótanudd og svifum aftur út eftir klukkustund. Þær eru frábærar þessar nuddkonurog kunna vel sitt fag. Svo fórum við í skólann sem Freyja var að vinna við og buðum öllum krökkunum þar út að borða á steihús þar sem hver steikti fyrir sig við borðið og voru þau rosalega glöð með þessa uppákomu og það var gaman að spjalla við þau. Þetta er ungt flóttafólk frá Burma sem hefur ekkert vegabréf þannig að þeim virðast allar brautir lokaðar varðandi menntun t.d. erlendis og búrmenskir skólar eru víst ekki upp á marga fiska. Við hjóluðum líka á markað og fórum í banka til að skipta peningum því hér er ekki tekið við visakortum. Sem sagt við vorum á ferðinni í allan dag og komum ekki heim fyrr en klukkan tíu og þá var búið að loka hótelinu en Oddi hafði verid treyst fyrir lykli að útidyrunum (hann er svo traustvekjandi) svo við komumst inn. Mér sýnist að við séum einu gestirnir. Freyja ætlar að hjálpa til við að baka bollur með morgunmatnum í fyrramálið. Hér gengur maður berfættur inn í hótelið og skórnir eru skildir eftir fyrir utan. Það er alltaf fullt af tátiljum fyrir utan allar dyr, ferlega fyndið. En í dag var mikið notað af búrmeskri þjónustu. Meira á morgun.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home