sunnudagur, júní 17, 2012

Landamærin

Þá er síðasti dagurinn í Mae Sot á enda og við færum okkur á næsta áætlunarstað sem er Yangon í Burma. Við fengum loks visa inn í landið svo þá er bara að framkvæma fyrirhugaða áætlun. En í dag fórum við að landamærum Burma eða Myanmar eins og það heitir núna. Við hjóluðum um 12 km niður að fljótinu sem rennur til sjávar hjá Yangon. Við fórum ekki yfir þau heldur gengum meðfram fljótinu og horfðum yfir en það eru aðeins nokkrir tugir metrar á breidd og stundum vaða Myanmarmenn yfir í þurrkatíð en það er ekki hægt núna vegna regntímabilsins. En það var samt straumur af fólki sem fór yfir á þeim stutta tíma sem við stoppuðum þarna og það var greinilega "bissness" hjá ferjumönnum við að ferja fólkið yfir. Á brúnni sem var rétt hjá var landamærastöðin en samt voru þessir flutningar látnir óáreittir. Eitthvað hefur heyrst að Myanmarmenn séu góðir kaupendur á alls kyns varningi við landamærin í Tælandi sem ekki er hægt að fá í Myanmar svo þeir láti sem þeir sjái þetta ekki. Annars er alltaf jafn heitt hérna og maður er í svitabaði allan daginn, svo koma alltaf svaka dembur annað slagið sem við stöndum bara af okkur undir einhverju skjóli sem við finnum hverju sinni. Í eitt skiptið fengum við Oddur okkur handsnyrtingu á meðan við biðum og til að fá samanburð á verðlagi þá kostaði hún fyrir okkur bæði 180 Bath sem er margfaldað með 4 til að fá íslenskar krónur. Ótrúlega ódýrt ekki satt. Hér eru það Myanmarfólk sem er í þjónustuhlutverkinu svipað og Pólverjar hjá okkur. Við fórum líka á lítið safn í dag sem sýnir myndir frá fangabúðum í Myanmar en Freyja hefur kynnst fyrrverandi pólitískum fanga þaðan og einnig hefur hún tekið viðtal við annan sem hún ætlar að nota í blaðagreinina sína. Dagurinn var nokkuð afslappaður að öðru leyti þar sem farið var á kaffihús og haldið upp á daginn okkar Íslendinga. En það er mjög gaman að hjóla um bæinn og skoða mannlífið sem er afskaplega frábrugðið okkar. Það er ekki víst að ég hafi tækifæri til að blogga í Myanmar því það er ekki víst að við séum með internetaðgang á hótelinu. Það kemur þá bara í ljós. En bestu kveðjur heim. Jens takk fyrir kveðjuna það var gaman að heyra að einhver nennir að lesa bloggið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home