laugardagur, júní 23, 2012

Á leið heim

Jæja þá er nú komið að leiðarlokum að þessu sinni. Við erum komin til Helsinki aftur, við lentum þar um miðjan dag í dag og það var grenjandi rigning og ekkert útivistarveður. Oddur er slæmur í maga og þurfti oft að nota klósetið. Sennilega afleiðingar frá Bangkokferð í gær. En eftir að við lentum um hádegið í Bangkok í gær skelltum við okkur í bæinn og hjóluðum um hluta hans ásamt leiðsögumanni og 7 Hollendingum. Það er ótrúlegt hvað var hægt að komast yfir stórt svæði á þennan hátt og með kunnugum umhverfinu og mælum við eindregið með að nýta sér svona þjónustu fyrir þá sem treysta sér til að hjóla. Það er nú ekki hægt að segja að Thailendingar séu sérlega kröfuhörð þjóð og alltaf virðst þeir vera glaðir og ánægðir með sitt. Mér fannst nú bara hátíð að koma aftur til Thailands eftir að hafa verið í Myanmar. Það er allt svo tötralegt og gamalt og lúið þar enda hefur verið viðskiptabann þar í mörg undanfarin ár. Það er miklu meiri fátækt þar en í Thailandi og ótrúlega margir betlarar á götunum og mörg börn sem ekki virðast vera í skóla. Þar eru skólar víða tvísetnir og fá börnin þá 4 tíma kennslu á dag. Freyja varð eftir í Bangkok og ætlar áleiðis heim á morgun (eða það höldum við, en það er aldrei að vita hvar hún beygir af leið) með viðkomu í Ohman þar sem vinkona hennar frá Kenya er og bíður hennar. Síðan fer hún til Bretlands og hittir þar fleira fólk og hún var jafnvel að hugsa um að skreppa til Birmingham og skoða sig um þar, því hún verður þar næsta vetur við mastersnám. Á morgun vill svo skemmtilega til að Jórunn flýgur með okkur heim til Íslands sem flugfreyja og hlökkum við mikið til að hitta hana. En sem sagt ævintýrið búið í bili og eigum við eftir að vinna úr þessari lífsreynslu sem þessi ferð var svo sannarlega og á nú Freyja að hluta til heiðurinn af því að við fórum hana. Takk Freyja.

fimmtudagur, júní 21, 2012

Síðasti dagur í Yangon

Þá er komið að því að við yfirgefum Myanmar og hoppum aftur til Thailands á morgun. Í dag fórum við með Freyju aftur niður á NLD þar sem hún fékk viðtal við einhvern fulltrúa. Síðan gengum við niður í bæ og ætluðum að leita okkur að einhverjum góðum innlendum stað til að borða á, en fundum engan sem okkur leist á svo við fórum á flottasta hótelið í bænum og fengum okkur glæsilegan lunch og hann kostaði reyndar sitt líka miðað við innlent en við vorum sæl og glöð með það. Það er lítið um ferðamenn hér og við vekjum athygli í bænum. Veitingastaðirnir eru svo miklar búllur að það er ekki kræsilegt að fara inn og fá sér að borða. Annars skoðuðum við mjög fallega garða (verst að geta ekki sett myndir á bloggið) og svo fórum við upp í turn (20 hæðir) til að skoða útsýnið og þegar við ætluðum niður og vorum komin inn í lyftuna fór rafmagnið af. Við komumst út aftur úr lyftunni þar sem hún var ekki lögð af stað niður og ég harðneitaði að fara niður með henni svo við gengum alla stigana niður á fyrstu hæð. Það er alltaf verið að taka af rafmagnið hér og skammta fólkinu. Til að geta selt meira til útlanda. Við erum líka alltaf að lenda í ævintýrum með peninga, það virðist vera tvenns konar gjaldmiðill í gangi bæði dollarar og kyat (1 króna = 7 kyat). Dollaraseðlarnir eru skoðaðir í bak og fyrir og oft spurt hvort við eigum ekki betri eintök og stundum vilja þeir þá ekki. Við skiljum þetta ekki alveg en seðlabankinn tekur aðeins nýja og óskemmda seðla. Nú fer þessu ævintýri að ljúka og allt hefur þetta gengið samkvæmt áætlun. Sem sagt Bangkok á morgun, Finnland á laugardag og Ísland á sunnudag. Heyrumst.

miðvikudagur, júní 20, 2012

Twante

Það var vaknað snemma í morgun því nú var ákveðið að fara yfir fljótið Yangon sem rennur í gegnum borgina og heimsækja þorpið Twante. Twante liggur í suðvestur frá Yangon og við þurftum að taka ferju yfir fljótið og síðan var samið við einn bíleiganda hinu megin árinnar um að aka okkur til Twante sem liggur í margra km fjarlægð frá ánni. Þetta reyndist hin mesta ævintýraferð, vegirnir ótrúlega vondir, það gerði nokkrum sinnum úrhellisrigningu og viti menn við skoðuðum eina pagóðuna enn þrátt fyrir mótmæli um að við værum búin að sjá nóg af þeim. Þetta er greinilega það sem á að sýna ferðamönnum þegar þeir koma í heimsókn. En okkur finnst alveg nóg að sjá eina :-) Við fengum að fara inn í eitt húsið (við köllum þetta nú ekki hús) stráhús sem var nýlega byggt og þar bjuggu 8 manns og húsið var svona um 30 fermetrar eða svo að stærð. Þar tók búddalíkneski um 1 fermetra af gólfplássinu í þessu litla húsi. Það var vatn undir húsinu og bambusstangir til að feta sig inn í húsið og við Oddur þorðum ekki inn því við vorum svo hrædd um að fara í gegnum gólfið :-( Einnig skoðuðum við skóla á leiðinni sem var mjög athyglisvert, en Japanir höfðu gefið bygginguna og þarna voru 320 börn á aldrinum 4 til 13 ára og um 35 börn í hverri deild. Í einum bekknum var verið að kenna ensku en það er nýbyrjað að kenna hana aftur í grunnskólum eftir langan tíma. í gær keypti ég mér longyi. En það eru allir í pilsum (longyi) bæði konur og karlar og það er mjö skrýtið að sjá þetta en þetta er einkennisklæðnaður í Myanmar og fann ég skemmtilega sögu á netinu um þennan klæðnað. http://www.legalnomads.com/2010/09/why-i-love-my-burmese-longyi.html Nú er Freyja búin að fá samband við mann hjá NLD National League for Democracy þar sem Aung San Suu Kyi stendur fyrir hér í Maynmar. Nú er Freyja að undirbúa sig fyrir viðtalið og er mjög spennt að fá efni í greinina sína sem hún er að undirbúa fyrir fréttablaðið. Annars er ástandið á fólkinu bara gott við erum reyndar hætt að telja moskítóbitin en þau eru mörg, sérstaklega á Oddi, en vonandi eru flugurnar sem stungu okkur lausar við malaríu-bakteríuna :-( En kláðinn er stundum óbærilegur.

þriðjudagur, júní 19, 2012

Yangon

Já við erum komin til Myanmar á hótel sem heitir Classique Inn og það er lítið sætt hótel sem Freyja fann á netinu og valdi eftir umsögnum gesta sem höfðu verið þar. Við erum nú ekki einu gestirnir þar eins og á því síðasta sem við gistum á, en hér eru bara 6 herbergi fyrir gesti voða "kósý". Dagurinn í gær fór allur í ferðalag og við fengum skutl út á völl á pallbíl sem hótelstjórinn reddaði. Annars gekk ferðalagið vel hingað það var reyndar voða fyndið að leigubílstjórinn sem ók okkur á milli flugvalla i Bangkok spurði hvort við vildum fara hraðbrautina sem við vildum og þurfti hann að stoppa þrisvar á leiðinni til að borga veggjald sem var veitt upp úr buddunni okkar í hvert skipti og síðan var rukkað á kílómetrann ákveðið gjald og að auki 50 Baht fyrir bílstjórann. Allt í allt greiddum við 500 Baht fyrir aksturinn (45 km) sem margfaldast með 4 = 2000 ísl. kr. Þá er það dagurinn í dag. Við fengum okkur leiðsogumann í allan dag sem fór með okkur um borgina og sýndi okkur það markverðasta og við notuðum óspart leigubílana til að fara á milli. Leigubílarnir er sérstakur kafli út af fyrir sig og alveg ótrúlegt að þeir skuli yfirhöfuð aka. Bílbelti hvað er nú það? Okkur finnst við vera í stöðugei lífshættu þegar við stígum upp í þessa bíla. En við erum enn næstum ósködduð en Oddur datt allhressilega þegar við vorum að skoða stóru pagóðuna Shwedagon í dag eftir enga smávegis rigningu því þá urðu flísarnar svo hálar og hann varaði sig ekki á því. Stóra táin rakst í þrep og er hún núna tvöföld. Það hefði ekki getað verið minna. Við fáum heilmikið út úr því að vera með leiðsögumann hann segir okkur frá daglegu lífi og ýmsu sem maður fær ekki upplýsingar um nema að tala við heimamenn. Við fylgjumst með Aung San Suu Kyi sem var í fyrsta skipti að fara úr landi eftir 24 ára stofufangelsi og við fórum að skoða húsið hennar þar sem hún var geymd. Oddur og Freyja vilja núna fara út að borða svo ég læt þetta duga núna. Meira á morgun já og til hamingju með kvenréttindadaginn í dag stelpur.

sunnudagur, júní 17, 2012

Landamærin

Þá er síðasti dagurinn í Mae Sot á enda og við færum okkur á næsta áætlunarstað sem er Yangon í Burma. Við fengum loks visa inn í landið svo þá er bara að framkvæma fyrirhugaða áætlun. En í dag fórum við að landamærum Burma eða Myanmar eins og það heitir núna. Við hjóluðum um 12 km niður að fljótinu sem rennur til sjávar hjá Yangon. Við fórum ekki yfir þau heldur gengum meðfram fljótinu og horfðum yfir en það eru aðeins nokkrir tugir metrar á breidd og stundum vaða Myanmarmenn yfir í þurrkatíð en það er ekki hægt núna vegna regntímabilsins. En það var samt straumur af fólki sem fór yfir á þeim stutta tíma sem við stoppuðum þarna og það var greinilega "bissness" hjá ferjumönnum við að ferja fólkið yfir. Á brúnni sem var rétt hjá var landamærastöðin en samt voru þessir flutningar látnir óáreittir. Eitthvað hefur heyrst að Myanmarmenn séu góðir kaupendur á alls kyns varningi við landamærin í Tælandi sem ekki er hægt að fá í Myanmar svo þeir láti sem þeir sjái þetta ekki. Annars er alltaf jafn heitt hérna og maður er í svitabaði allan daginn, svo koma alltaf svaka dembur annað slagið sem við stöndum bara af okkur undir einhverju skjóli sem við finnum hverju sinni. Í eitt skiptið fengum við Oddur okkur handsnyrtingu á meðan við biðum og til að fá samanburð á verðlagi þá kostaði hún fyrir okkur bæði 180 Bath sem er margfaldað með 4 til að fá íslenskar krónur. Ótrúlega ódýrt ekki satt. Hér eru það Myanmarfólk sem er í þjónustuhlutverkinu svipað og Pólverjar hjá okkur. Við fórum líka á lítið safn í dag sem sýnir myndir frá fangabúðum í Myanmar en Freyja hefur kynnst fyrrverandi pólitískum fanga þaðan og einnig hefur hún tekið viðtal við annan sem hún ætlar að nota í blaðagreinina sína. Dagurinn var nokkuð afslappaður að öðru leyti þar sem farið var á kaffihús og haldið upp á daginn okkar Íslendinga. En það er mjög gaman að hjóla um bæinn og skoða mannlífið sem er afskaplega frábrugðið okkar. Það er ekki víst að ég hafi tækifæri til að blogga í Myanmar því það er ekki víst að við séum með internetaðgang á hótelinu. Það kemur þá bara í ljós. En bestu kveðjur heim. Jens takk fyrir kveðjuna það var gaman að heyra að einhver nennir að lesa bloggið.

laugardagur, júní 16, 2012

Lakkaðar táneglur og tælenskt fótanudd

Dagurinn í gær endaði á fótsnyrtingu og lokkuðum tánöglum (ekki Oddur). Sex tælenskar konur dunduðu við tærnar á okkur í klukkustund og við svifum út á tátiljunum okkar eftir aðgerðina. Á hótelinu hittum við tvo gæja sem við spjölluðum við og voru þeir báðir að vinna að málefnum Burma. Annar er Skoti og er yfirmaður allra skrifstofa í flóttamannabúðum á landamærum Burma og Tælands sem eru nokkrar. Hinn er Bandaríkjamaður og ellilífeyrisþegi og er að þjálfa burmennsk ungmenni nokkurs konar starfsþjálfun til að hjálpa þeim að koma undir fótunum. En það er einmitt það sem Freyja er líka að vinna að hér. Að sjálfsögðu var það málefni aðalumræðan og kemur Freyju vel því hún er að safna í blaðagrein sem hún ætlar að skrifa um málefni Burma. Við fengum að þefa aðeins af rigningunni í dag eða skúrunum, ég hef aldrei séð svona úrhelli áður og var það ævintýralegt. Þegar eitt úrhellið steyptist yfir settumst við inn á nuddstofu og fengum okkur fótanudd og svifum aftur út eftir klukkustund. Þær eru frábærar þessar nuddkonurog kunna vel sitt fag. Svo fórum við í skólann sem Freyja var að vinna við og buðum öllum krökkunum þar út að borða á steihús þar sem hver steikti fyrir sig við borðið og voru þau rosalega glöð með þessa uppákomu og það var gaman að spjalla við þau. Þetta er ungt flóttafólk frá Burma sem hefur ekkert vegabréf þannig að þeim virðast allar brautir lokaðar varðandi menntun t.d. erlendis og búrmenskir skólar eru víst ekki upp á marga fiska. Við hjóluðum líka á markað og fórum í banka til að skipta peningum því hér er ekki tekið við visakortum. Sem sagt við vorum á ferðinni í allan dag og komum ekki heim fyrr en klukkan tíu og þá var búið að loka hótelinu en Oddi hafði verid treyst fyrir lykli að útidyrunum (hann er svo traustvekjandi) svo við komumst inn. Mér sýnist að við séum einu gestirnir. Freyja ætlar að hjálpa til við að baka bollur með morgunmatnum í fyrramálið. Hér gengur maður berfættur inn í hótelið og skórnir eru skildir eftir fyrir utan. Það er alltaf fullt af tátiljum fyrir utan allar dyr, ferlega fyndið. En í dag var mikið notað af búrmeskri þjónustu. Meira á morgun.

föstudagur, júní 15, 2012

Mae Sot

Dagurinn í dag fór í að aka til Mae Sot þar sem Freyja hefur verið við störf. Það tók hálfan dag og á leiðinni sprakk á bílnum svo pabbi fékk tækifæri til að skreppa út í skóginn og mynda og skoða skordýrin sem er að finna hér í miklu magni og fjölbreytileika. Hér býr fjöldinn allur af fólki frá Burma sérstaklega ung fólk sem hefur ekkert vegabréf og er í rauninni fast hér vegna þess. En á leiðinni hingað var greinlega passað upp alla vegfarendur því við fórum í gegnum 3 hlið þar sem kíkt var inn í bílinn og athugað hvort við værum frá Burma en við litum ekkert sérstakleg þannig út :-) Til og frá Mae Sot er aðeins einn vegur og það er eins og að koma tugi ára aftur í tímann að koma hér. Við byrjuðum á að leigja okkur hjól til að komast um en það eru engir leigubílar hér t.d. Ég veit ekki hvernig við eigum að komast út á flugvöll þegar við förum á mánudag? En það kemur bara í ljós þegar þar að kemur. Við heyrumst á morgun og þá get ég vonandi sagt frá einhverjum ævintýrum sem verða mjög sennilega það sem eftir lifir kvöldsins.

fimmtudagur, júní 14, 2012

Matreiðslunámskeið

Í dag var heitt næstum of heitt, alla vega hefði ég verið til í 15 gráðu minni hita. En í dag fórum við á markað með alls kyns trjávörur frá húsgögnum niður í sleifar og krúsir. Tælendingar eru mikid fyrir að mála trjávörurnar sínar med gylltum lit og eru þetta mjög ofskreyttar vörur sem falla ekki i kramid hjá mörgum. Við röltum þarna fram og aftur hálfmeðvitundarlaus í hitanum og vorum fegin þegar bílstjórinn okkar kom og sótti okkur á umsömdum tíma til að fara með okkur á matreiðslunámskeið. Fyrst fór kennarinn með okkur á markaðinn að finna vörurnar sem við elduðum úr, síðan var ekið sem leið lá að skólanum sem reyndist vera heima hjá henni aðeins utan við bæinn. Þar var elduð fjórréttuð máltíd og má segja að það er nú ekki ýkja erfitt að elda svona ef maður bara kann það. Var þetta ekki flott sagt? En þetta var skemmtilegt og fróðlegt og alltaf gaman að komast í návígi við innfædda og spjalla við þá. Ekki er meira að segja að þessu sinni en á morgun flytjum við okkur um set og ökum til Mae Sot þar sem Freyja hefur dvalið í Tælandi. Það tekur um fimm tíma að aka þangað og verðum við með bílstjóra frá Chiang Mai sem flytur okkur. Nú erFreyja að raða upp í Catan spilið sem hún er að kenna okkur svo það er eins gott að setja sig í stellingar því hún vann okkur í gær.

miðvikudagur, júní 13, 2012

Hjólatúr í Chiang Mai

Í morgun smelltum við okkur í hjólatúr með tælenskum leiðsögumanni og hjóluðum um borgina og í útjaðri hennar. Með okkur í ferð voru tveir Ástralar og var þetta sérlega vel heppnað. Síðar um daginn skoðuðum við gömlu borgarmúrana frá 13. Öld en eins og víða á þessum tímum voru borgir víggirtar til ad verjast árásum. Hér urdu mikil flóð í fyrra og má víða sjá merki þess á húsveggjum og girðingum. Nýr dagur - miðvikudagur Ég náði ekki að klára í gær ég var svo þreytt, ekki búin að jafna mig á tímamismuninum ennþá. Í dag fórum við í langan bíltúr og fórum upp á hátt fjall í nágrenni Chiang mai og skoðuðum hof eða musterið Doi Suthep en þar búa munkar í appelsínugulum klæðum. Þar var mikið skraut og fínerí. Þar var einnig fullt af fólki sem var að færa fórnir á ýmsan hátt, það var mikið með blóm og reykelsi en einnig gaf það fugla lifandi sem það sleppti úr körfubúrum. Eftir musterið ókum við í Mae sa dalinn þar sem Karen fólkið lifir. (http://www.karen.org.au/karen_people.htm) þar var margt að skoða -fólkið býr þarna og lifir á því að búa til minjagripi og fleira til að selja ferðamönnum og sýna gamla lifnaðarhætti. Það býr við mjög frumstæð skilyrði. Við búum á hóteli utan við bæinn í mjög friðsælu hverfi. Hótelið rekur kanadísk kona og það eru bara 4 herbergi sem eru leigð út. Freyja fann þetta á netinu. Við læsum ekki einu sinni herberginu þegar við förum út á daginn. Oddur og Freyja eru að láta sauma á sig föt og verða þau tilbúin á morgun. Það er mjög ódýrt að láta sauma á sig hérna t.d. kosta flottar buxur á Odd bara um 8000 kr. Veðrið leikur við okkur en það er yfirleitt um 30 gráður sem Freyja segir að sé frábært miðað við það sem verið hefur hjá henni hér áður, okkur líkar það ekki illa kannski pínu of heitt. Sem sagt allt gengur bara voða vel og við lendum í ævintýrum á hverjum degi enda er umhverfið afar ólíkt því sem við höfum upplifað áður. Ég kann ekki að setja myndir inn í bloggið af ipaddinum mínum, það er eitthvað sem ég þarf að græja. En meira á morgun.

mánudagur, júní 11, 2012

Chiang Mai

Komum í dag til Chiang Mai í Norður Tælandi. Þetta var langt og strangt ferðalag sérstaklega þar sem lítid var sofið í vélinni. En við hittum Freyju a flugvellinum í Bangkok og flugum síðan saman hingað norður og vorum Við búin að panta hótel dálítið fyrir utan borgina til að dvelja þar í 4 daga. Lítið og sætt hótel sem kanadísk kona rekur. Við fórum í bæinn þrátt fyrir lítinn svefn síðustu nótt og skiptum peningum en hér eru notuð bath sem jafngildir 4 ísl. krónum. Einnig fengum við okkur að borða á indverskum veitingastað og Oddur pantadi að láta sauma a sig þrennar buxur og skyrtur sem hann fær áður en við förum héðan á föstudag og Freyja fær sér pils. Við fórum í fiskspa við Freyja en Oddur þorði ekki :-). Fisk-spa er þannig að maður stingur fótunum ofan í vatn með fiskum sem heita Garra Rufa en það eru litlir fiskar sem koma frá heitum uppsprettum í Tyrklandi og þeir narta í fæturna á manni og éta dauða húð af þeim. Það var mjög skrýtin tilfinning þegar þeir nörtuðu í mann svo tugum skipti. Það er regntímabil hérna núna og fengum við aðeins að smakka aðeins á því í dag en það rignir ekki stanslaust heldur koma svaka dembur sem standa tiltölulega stutt en það kemur mikið magn. Skrifa meira á morgun. Orðin ótrúlega þreytt. Kolla

Helsinki

Við græddum nokkra klukkustundir á að fá beint flug til Finnlands og notuðum við það vel. Við skoðuðum steinkirkjuna sem allir tala um sem fara til Finnlands og dómkirkjuna (já bara alltaf í kirkjum), fengum okkur að borða á kínverskum og síðan bara heim að hvíla sig fyrir næstu törn en það verður langur dagur á morgun.

laugardagur, júní 09, 2012

Helsinki

Komin til Finnlands, hér er dumbungur og súld en við létum það ekki á okkur fá og notuðum vel tímann til að skoða okkur um í borginni. Temppeliaukio kirkjan var skoðuð eða steinkirkjan svokölluð.Hér er hægt að skoða hana http://www.google.com/search?q=temppeliaukio+church&ie=UTF-8&oe=UTF-8&hl=en&client=safari Við höldum síðan áfram síðdegis á morgun og höfum þá tíma fram að hádegi til að líta frekar á mannlífið. Kínverskur veitingastaður varð fyrir valinu í kvöld svona til að venja okkur við Asíumatseldina. Læt heyra meira i mér eftir tvo daga því við missum 7klukkustundir úr á ferðalaginu austur á bóginn. Kveðja frá Oddi

Af stað ......

Jæja þá erum við lögð af stað. Í rútunni á leiðinni út á völl komu skilaboð um seinkun og þar sem við vorum í tengiflugi til Helsinki mundum við hafa misst af fluginu svo við vorum bara sett á annað flug og á Saga class. Það er ekki dónalegt svo nú er bara að vona að öll ferðin snúist upp í classaferð. Sem sagt Helsinki í dag og Tæland seinni partinn á morgun. Nú er verið að kalla út í vél og ævintýrið byrjað.

föstudagur, júní 08, 2012

Næsta ferð

Þá er verið að koma sér af stað i næstu ferð. Það er Tæland að þessu sinni. italia að baki í síðustu viku. Læt heyra frá okkur þegar eitthvað fer að gerast. Bara að prófa Ipaddinn sem verður að þessu sinni með í för. Virðist ganga vel.