þriðjudagur, apríl 12, 2011

Bjórverksmiðjan


Í dag fengum við að sjá tónmenntatíma hjá 10 ára krökkum. Þau lesa nótur, syngja í röddum, spila á blokkflautur og panflautur sem eru heimagerðar úr rafmagnsrörum og eru þeir rosalega flínkir og prúðir. Maður á eiginlega ekki orð hvað mikið fer fram í tímanum sem er 45 mín langur.



Eftir kennslu í dag þar sem við kenndum páskaungana og páskadúkana fórum við ferð til Birzair sem er smábær í 2 klst akstri frá Siaulie. Þar er bjórverksmiðja sem býr til Rinkuskiai bjór sem þykir mjög góður. Við brögðuðum á 5 tegundum af mjöðnum og varð hann alltaf sterkari og sterkari eftir því sem könnunum fjölgaði á borðinu og var kominn galsi í konurnar þegar á leið.


Veðrið var mjög gott en frekar kalt og var ís á vatninu við bæinn. Við sáum stork á labbi en það eru víst margir slíkir hér um slóðir. Það er ótrúlegt að aka um þessar slóðir, allt er svo flatt og akrar út um allt og pollar og tjarnir svo langt sem augað eygir. Tré eru svona hér og þar í flákum og í dag sáum við breiður af eplatrjám mjög lágvöxnum þar sem verið var að klippa ofan af þeim fyrir sumarið. Það er ekki mikið um ár hérna og fjöll engin. Húsin í þorpunum eru frekar fátækleg svo og bóndabæirnir. Það er greinilega ekkert ríkidæmi á hverju strái. Landbúnaðarvélar sjást varla og þá svo gamlar eða eins og bláu ferguson-traktorarnir voru í eldgamla daga. Jæja nú eru allir sofnaðir og farnir að hrjóta í kringum mig svo það er best að koma sér í háttinn til að vera hress á morgun við fyrirlestrana.



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home