mánudagur, apríl 11, 2011

Juventa skólinn í Siauliu


Í dag var skólaheimsókn í Juventa skólann í Siauliu í Litháen þar sem 1000 börn eru við nám. Þarna starfa 100 kennarar með 30 börn í bekk á miðstigi og ofar en 24 á yngsta stigi. Nemendur eru á aldrinum 6 til 15 ára. Þessi skóli er sérhæfður í tónlistarkennslu og eru 36 kennarar af þessum 100 tónmenntakennarar. Í Siauliu eru um 700 þús. íbúar og fer fækkandi. Þeir eru með NATO stöð hér í úthverfinu og þar eru franskir, þýskir og bandarískir hermenn og er skólinn í sambandi við stöðina og koma hermennirnir oft í heimsókn og tala við nemendur og öfugt, en nemendur fara einnig þangað og er þetta liður í tungumála- og landafræðináminu.


Jón og Gunna voru afhent við hátíðlega athöfn á sal. Sómdu þau sér vel í þjóðbúningum sínum. Við Elín kenndum svo 10 ára nemendum í morgun að búa til páskadúka og páskaunga og voru nemendur afar prúðir og kurteisir.




Við kenndum líka tveimur bekkjum á sal tvo gamla leiki, höfrungahlaup og hanaslag en við leitum í forna tíð eftir einhverju úr menningu okkar til að sýna þeim.



Skólinn er frekar gamall og lítur ekki vel út og frekar fátæklegt um að litast, það er eins og að stíga inn aðra veröld frá því fyrri partinn á 20. öld. Ljósin á göngunum eru t.d. slökkt til að spara rafmagn og aðeins kveikt í frímínútum. Annars eru allir hressir og glaðir og sýna okkur ánægjulegt viðmót. Í dag er rigning og hefur aðeins hlýnað. Við fórum í banka að skipta evrum í "litas" og er eitt litas tæplega 50 íslenskar krónur.


Síðan var hátíð í skólanum þar sem nemendur sýndu okkur dans, spiluðu fyrir okkur á blokkflautur og sungu raddað ýmsa söngva. Foreldrar komu líka að horfa á og svo dansaði allur hópurinn alls konar hópdansa saman. Þetta var bara fjör og læti og voða gaman. Síðan fengum við dumplings að borða og það var nú reyndar ekkert sérlega gott svo seinna um kvöldið fengum við okkur viðbótarkvöldverð á hótelinu:-)



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home