miðvikudagur, apríl 13, 2011

Geguziukai - Árbæjarsafn

Miðvikudagurinn rann upp bjartur og sólríkur hér í Litháen. Við fórum í skólann um hálf níu og hófum þann daginn á að horfa á enskukennslu hjá 9 ára krökkum. Við höldum að nemendur okkar séu komnir mun lengra í enskunámi hvað varðar framburð og skilning en þeir. Þeir eiga t.d. erfitt með að bera fram h fremst í orð. En þau voru dugleg og vinnusöm eins og við höfum séð alla vikuna. Síðan sýndum við 3. og 4. bekk kynningu frá Íslandi og skólanum okkar og voru þau mjög dugleg að spyrja og spurðu margra góðra spurninga og voru áhugasöm.


Svo setti ég sýninguna hans Odd í gang hjá 8. og 9. bekk (um 50 nemendur) og var sýningin á ensku og virtust þau skilja hana alveg enda var Oddur skýr í framburði og hafði hátt í stofunni í hátölurunum.

Eftir sýninguna tengdum við Skype og Oddur kom á skjáinn og spjallaði við nemendur og svaraði spurningum sem hefðu reyndar mátt vera fleiri en hann sagði þeim bara frá ýmsu varðandi eldfjöll og jökla þess á milli.


Eftir hádegið fórum við á nokkurs konar Árbæjarsafn sem var í útjaðri borgarinnar og hittum þar fyrir eldri hjón sem tóku á móti okkur með bjölluhljómi og einhverjum drykk sem þau höfðu búið til (birdwater). Eftir það vorum við leidd um svæðið og í hvern kofann af öðrum þar sem allt var fullt af reykjarsvælu innanhúss vegna þess að það var kynnt upp með spýtum í arni og ekki loftað nægilega vel út. Við dönsuðum á túninu með ungum krökkum sem einnig sungu fyrir okkur.


Við fengum að njóta ýmis konar drykkja með alls konar bragði, allt náttúrulegt, þá fengum við soðnar kartöflur með ídýfu sem var eldgamall réttur sem við þurftum að prófa. Boðið var upp á sauna og bað í trépotti úti á túni sem aðeins einn þáði. Svo bjuggum við til kerti úr býflugnavaxi og lituðum egg sem voru mjög skrautleg eins og sjá má á myndinni.






Eftir þetta allt var okkur ekið í "Moll" þar sem við röltum um, en keyptum lítið og fengum okkur að borða. Góður dagur með góðu veðri og góðu fólki.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home