Confucius heimspekingur og "Hollywoodstjarna"
Jæja þá er komið að heimferð eftir langa og ævintýralega dvöl hér í Kína. Þetta er búið að vera frábær upplifun á annars konar menningu en maður er vanur. Það er svo margt öðruvísi hér t.d. siðirnir, maturinn, trúarbrögðin, umferðin og viðhorfin svo eitthvað sé nefnt. Við höfum verið með leiðsögumann sem gætir manns eins og sjáaldur auga síns en það er hún Katie (enska nafnið hennar) eða Liu Xiaomin upp á kínversku. Við erum búin að þræða mannmergðina í dýragarðinum í dag og stóru göngugötuna ásamt því að fara á Torg hins himneska friðar til að sjá fána Alþýðulýðveldisins dreginn niður eftir kúnstarinnar reglum og alltaf er hún með auga á okkur og við höfum aldrei týnst:-)
Sem sagt í dag var farið í dýragarðinn þar sem hinar margumtöluðu pöndur eignuðust afkvæmi á síðasta ári (sjá mynd). Í gær hins vegar fórum við í Confuciusar-musterið hér í Peking (en þau eru víða í öðrum löndum) sem var allmerkilegt. Ég hef nú aldrei kynnt mér neitt um þennan heimspeking (sem er Kínverji) en hann var uppi fyrir um 2500 árum. Kennarar ættu kannski að skoða hans fræði eitthvað frekar því hann var t.d. sá sem stofnaði fyrsta einkaskólann í heiminum svo eitthvað hefur karlinn verið framsýnn. Eftir að hafa skoðað sögu hans og lesið um það sem hann lagði til sé ég að það er svo sannarlega margt sem á við enn þann dag í dag. Í musterinu geta nemendur svo fengið aðstöðu við að lesa lexíurnar sínar, þar er einnig bókasafn. Sjá mynd af Confuciusi (merkilegt að geta búið til styttu af svo gömlum manni, það þarf gott minni til þess) og okkur fyrir utan musterið hér fyrir neðan.
Við erum búin að fara á marga skemmtilega og flotta veitingastaði hér í Peking með henni Katie og einkabílstjóranum okkar (hann er alltaf með) og fá afar skrýtna, frumlega og misgóða rétti sem við hefðum aldrei pantað okkur ef við hefðum verið ein á ferð. En Kínverjar eru greinilega snjallir kokkar og búa til mat úr öllu sem hreyfist og vex á jörðinni held ég. Ég var nú ekki alveg jafn hress með allt sem var pantað en það voru yfirleitt 6 til 8 réttir í hvert sinn en það var gaman að kynnast þessu samt. (Ég held að ég sé farin að hlakka til að koma heim í ýsuna og soðnu kartöflurnar). Ég prófaði þó alltaf allt og fór það misjafnlega vel í maga. Einu sinni mótmælti maginn og stóðu þau mótmæli yfir í tvo daga svo þá fuku nokkur hundruð grömm í burtu.
En sem sagt þessu ferðalagi lýkur með heimferð á morgun (laugardag) sem tekur 34 klukkustundir þar til við lendum í Keflavík, en við fáum nú aftur þessar 8 klst. sem við töpuðum á leiðinni hingað.








